Íþróttaiðkun barna og unglinga. Hlustum og fylgjumst með

Jón Arnar Magnússon, kírópraktor hjá Kírópraktorstofu Íslands og ólympíufari í tugþraut. Fréttatíminn 17.júlí 2015

Ég hef undanfarið fylgst með umræðunni varðandi meiðsl og álag á börn og unglinga í íþróttum. Íþróttaiðkun hefur farið vaxandi og eru nú ansi margir einstaklingar farnir að æfa eins og afreksíþróttamenn.

Ég hef einnig tekið eftir að foreldrar og þjálfarar hlusta ekki á ungmennin þegar þau byrja að kvarta yfir verkjum hér og þar. Verkirnir eru taldir vera venjulegir vaxtaverkir. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að umhverfið hefur breyst mjög mikið varðandi æfingaaðstöður og álagið hefur aukist til mikilla muna á ungmennin.

Nú er kominn tími til þess að fylgjast með krökkunum og hlusta á þá þegar þeir kvarta. Það er ekki eðlilegt að ungmenni þjáist af bakverkjum, höfuðverkjum eða verkjum í líkamanum vegna álags undan æfingum.

Það þarf að greina hvað er að gerast og koma í veg fyrir að álag og verkir safnist upp þannig að á endanum getur viðkomandi ekki stundað íþróttir vegna verkja, ekki verið með út af álagsmeiðslum o.s.frv. Þá kemur rétt greining sér vel; nárameiðsl, tognun aftan á læri, höfuðverkur, verkur í mjóbaki og svo mætti áfram telja. En af hverju koma þessi meiðsl? Getur verið að mjaðmagrindin sé skökk eða annar fótleggurinn styttri en hinn? Vinna vöðvarnir ekki eins og þeir eiga að gera? Allt þetta er hægt að greina og ættu foreldrar og þjálfarar umsvifalaust að leita til stoðkerfissérfræðinga ef grunur leikur á að þessi vandamál séu uppi, til þess að koma í veg fyrir brottfall úr íþróttum og ótímabær meiðsl.

Við verðum að hugsa um ungmennin og hlusta þegar þau kvarta, ekki grípa of seint inn í meiðslaferli því það getur hamlað árangri og ástundun.

Ég hef í starfi mínu sem kírópraktor séð fjölmörg dæmi um að einstaklingur hefur hætt iðkun út af meiðslum en eftir greiningu og meðferð, komist af stað aftur og allt að því eignast nýtt líf.
Mér þykir mikilvægt að grípa sem fyrst inn í þetta ferli og fá viðkomandi góðan eins fljótt og hægt er.

Hjá fótboltaiðkendum er mikið um mjaðmaskekkjur sem myndast við það mikla álag þegar annar fóturinn er notaður sem bremsa en hinn sveiflast fram og sparkar. Þetta er hægt að leiðrétta með góðri greiningu og ákveðinni aðferðafræði sem unnið er eftir. Það sama á um fimleika, handbolta, frjálsar og allar íþróttagreinar.

Með því að hlusta á og fylgjast með ungmennunum og líka fullorðnum er hægt að koma viðkomandi fljótt til iðkunar eða inn í liðið aftur.

Auk þess hef ég einnig tekið eftir að í sumum tilfellum er um mislengd fótleggja að ræða, vöðvaójafnvægi eftir meiðsl og sem dæmi um það má nefna að þegar einstaklingur tognar á ökkla þá slokknar á stóra rassvöðvanum á sömu hlið og tognunin átti sér stað. Það er ekki gefið að hann taki til starfa aftur þegar tognunin er gengin til baka. Þessu þarf að fylgjast með og grípa inn í ef þetta gerist.

Við eigum bara einn líkama og hann á að endast okkur alla ævi. Ekki taka því sem sjálfsögðum hlut að hafa verki eða finna til.
Það er staðreynd að ef stoðkerfið okkar virkar vel, sem og fjöðrunarbúnaður líkamans og hulstrið utan um taugakerfið, þá líður okkur vel og erum betur í stakk búin að fást við það sem lífið býður upp á.