Golfhringur tekur að meðaltali tæpa fjóra tíma og vegalengdin sem er gengin er að minnsta kosti 9.000 metrar. Iðkendur brenna á bilinu 2.000-2.500 hitaeiningum á einum golfhring og missa um það bil 1-1,5 kg á 18 holu hring.
Margir kannast við að seinustu 4–6 holurnar enda með hærra skori en við hefðum viljað, en af hverju? Ef mataræðið er ekki næringar- og orkuríkt eða ef hreinlega ekkert er borðað fyrir 18 holu golfhring þá verðum við fyrir svokölluðu blóðsykurfalli, einbeiting og kraftur minnkar snögglega og hæfni okkar til að spila gott golf dvínar. Besta leiðin til að koma í veg fyrir að lenda í þessum aðstæðum er að borða reglulega yfir daginn og góða máltíð 2–3 tímum fyrir golfiðkun. Nauðsynlegt er að hafa með sér ávöxt eða samloku til að borða með jöfnu millibili á meðan spilað er. Að borða sjaldnar gerir það að verkum að líkaminn hægir á brennslunni og í raun léttumst við hægar og missum hærra hlutfall af vöðvum en þegar mataræðið er í lagi.
Að lokum, munið að drekka vatn á meðan spilað er og sérstaklega þegar spilað er erlendis í miklum hita.